Heimskreppa í alþjóðlegri ferðaþjónustu
Árið 2020 byrjaði með eðlilegum hætti. Ferðaþjónustan var að jafna sig eftir hrun WOW Air og fátt benti til þess að ferðalög til Íslands myndu stöðvast með alvarlegum afleiðingum fyrir ferðaþjónustuna og íslenskt samfélag. Fyrsta smitið greindist á Íslandi 28. febrúar 2020 og þá hófst mikil rússibanareið sem stendur enn yfir en sem sér sem betur fer fyrir endann á.
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu um allan heim. Það kæmi ekki á óvart að margir innan atvinnugreinarinnar hefðu hugsað: Munum við lifa þetta af?
Á upphafsdögum faraldursins var vitað að efnahagslegar afleiðingar yrðu umtalsverðar. Stjórnvöld um allan heim gripu til harðra sóttvarnaaðgerða til að verjast alvarlegum veikindum, dauða og samfélagslegri röskun. Áhrif á framboð og eftirspurn komu samtímis fram og lýsandi dæmi er samdráttur í farþegaflugi og ferðaþjónustu víða í heiminum. Í apríl á síðasta ári (2020) náði flugumferð á flugi í heiminum sínum lægsta punkti í samtímasögu flugrekstrar þegar hún var um 2% af flugumferð í venjulegu árferði.
Rök fyrir hörðum sóttvörnum á heimsvísu eru að þær fela í sér skammtímafórn fyrir langtímaávinning. Fyrir þann sem stendur í miðjum storminum með rekstur sem kominn er að þolmörkum kann það að vera lítil huggun harmi gegn.
Sennilega verður einn mikilvægasti lærdómurinn af Covid-19 faraldrinum sá að ríki heims geta með ströngum sóttvörnum hindrað ferðalög um heiminn og markaðir lokast hratt.
Alþjóðaferðamálastofnunin (UNWTO) gerir ráð fyrir að ferðamönnum á heimsvísu fækki um rösklega þúsund milljónir á árinu 2020, úr 1.459 milljónum á árinu 2019 í um 410 milljónir. Það er svipaður fjöldi og var á ferðalagi um heiminn fyrir um 30 árum.
Í fyrra (2020) fækkaði erlendum ferðamönnum mest í Asíu (82,3%) en það var fyrsta markaðssvæðið sem varð fyrir barðinu á veirunni. Góðu fréttirnar þaðan eru að innlendri ferðaþjónustu (domestic) óx ásmegin er líða tók á árið. Innanlandsflug og ferðalög heimamanna innanlands voru í lok árs á svipuðum slóðum og fyrir faraldur. Verri fréttir eru að á fyrstu vikum og mánuðum ársins 2021 hefur alþjóðlegt farþegaflug ekki tekið við sér á ný.
Erlendir ferðamenn (áætlun) um heiminn 2020
% breyting milli ára
Heimild: Alþjóðaferðamálastofnunin (UNWTO)
Evrópa er vinsælt markaðssvæði meðal alþjóðlegra ferðamanna. Á árinu 2019 er gert ráð fyrir að um 744 milljónir erlendra ferðamanna hafi heimsótt álfuna eða rúmlega 51% allra alþjóðlegra ferðamanna á því ári.
Í fyrra (2020) heimsóttu rúmlega 230 milljónir erlendra ferðmanna Evrópu eða 68,5% færri en það gerðu 2019. Flestir komu á fyrstu vikum og mánuðum ársins.
Þróunin var svipuð í Norður-Evrópu. Fækkun á komum erlendra ferðamanna var mest hérlendis, en þeim fækkaði um rösklega 1,5 milljón milli ára, úr rúmlega 2 milljónum 2019 eða um 79,9%. Á undanförnum árum hefur markaðshlutdeild Íslands farið vaxandi, enn er hún þó mjög lítil. Einungis lítið brot af erlendum ferðamönnum sem leggja leið sína til Norður-Evrópu kemur til landsins. Á árinu 2018 var markaðshlutdeildin 2,9% en gera má ráð fyrir að hún hafi verið um 1,7% á síðasta ári (2020).
Erlendir ferðamenn í Norður-Evrópu 2020
% breyting frá fyrra ári
Heimild: Alþjóðaferðamálastofnunin (UNWTO)
Bretland er langvinsælasti áfangastaðurinn meðal þeirra erlendu gesta sem leggja leið sína til Norður-Evrópu og eru Norðurlöndin dvergríki í þeim samanburði. Á árinu 2019 heimsóttu um 39,5 milljónir erlendra ferðamanna Bretland, í fyrra voru þeir um 15,6 milljónir, eða 60,5% færri. Markaðshlutdeild Bretlands í fjölda alþjóðlegra ferðamanna sem lögðu leið sína til Norður-Evrópu var þá um 55%.
Alþjóðleg ferðamennska í stormi
Strax í apríl lögðust ferðalög því sem næst af og smám saman var ljóst að ráðstafanir stjórnvalda til að hægja á útbreiðslu veirunnar, ótti almennings við smit og miklar sóttvarnir mundu leiða til hruns í farþegaflugi og ferðaþjónustu í heiminum.
Í Norður-Evrópu varð gríðarmikið hrun í gjaldeyristekjum af þjónustu við erlenda ferðamenn (án flugfargjalda) á öðrum ársfjórðungi ársins 2020.
Tekjur af erlendum ferðamönnum á öðrum ársfjórðungi 2020
% breyting frá fyrra ári
Heimild: Alþjóðaferðamálastofnunin (UNWTO)
Samdrátturinn var meiri hér á landi en víða annars staðar. Þannig hrundu gjaldeyristekjur af þjónustu við erlenda ferðamenn (án flugfargjalda) á öðrum ársfjórðungi 2020 um 92% milli ára.
Jákvæðar hliðar á sama máli eru að fámenn eyþjóð í strjálbýlu landi norður i hafi var í betri stöðu til að takast á við heilsufarslega þróun faraldursins en margar aðrar þjóðir.
Rekstrarhagnaður í helstu greinum ferðaþjónustunnar þurrkast út samkvæmt uppgjöri þjóðhagsreikninga fyrir árið 2020
Kostnaður efnahagslífsins mikill
Heimsfaraldur kórónuveiru hrundi af stað metsamdrætti í efnahagslífi ríkja um allan heim. Í þeim löndum þar sem ýmis þjónusta og menningartengd starfsemi vegur þungt er áfallið eðlilega meira vegna strangra samkomutakmarkana og félagslegra hafta.
Í nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru efnahagshorfur framundan betri en búist hafði verið við í fyrri spám stofnunarinnar. Sú þróun skýrist ekki síst af þeim aðgerðum sem ríki hafa gripið til, líkt og hér á landi, til að milda neikvæð efnahagsleg áhrif af faraldrinum.
Atvinnuleysistölur hér á landi sýna þó að áhrifanna gætir víðar. Í mars 2020 var almennt atvinnuleysi 6,9%, eða 14.221 manns. Þar af voru um 25% sem höfðu starfað í flug- og ferðaþjónustu. Í febrúar 2021 voru rúmlega 21.000 manns án atvinnu, þar af höfðu 37% starfað í flug- og ferðaþjónustu. Í flestum atvinnugreinum hefur atvinnuleysi aukist milli þessara tímapunkta.
Það verður seint hægt að gefa algilt svar við spurningunni: Hver er mögulega hagkvæmasta samsetning sóttvarnaaðgerða og efnahagsmála þegar farsóttir geisa? Það sama gildir um mat á spurningunni hver sé efnahagslegur kostnaður af farsóttum til skamms og langs tíma.
Hvað sem öðru líður er hagvöxtur almennt talinn megindrifkraftur bættra lífskjara og vel þekkt að farsóttir draga almennt úr lífskjarasókn og getu þjóða til að framleiða vörur og veita þjónustu. Á mælikvarða vergrar landsframleiðslu var samdráttur í efnahagslífinu 6,6% í fyrra (2020) í heild. Til samanburðar mældist samdráttur á árinu 2009, í kjölfar fjármálahrunsins, um 7,7%.
Landsframleiðsla
% breyting frá fyrra ári
Heimild: Hagstofa Íslands
Samdrátturinn er minni en Seðlabanki Íslands og aðrir greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir, en þá þarf að huga að því að tekjur á mann eru að dragast saman um 8,2% samkvæmt sömu mælingu sem sýnir að lífskjörin á mann eru að versna.
Borið saman við mörg önnur samdráttarskeið er staðan óvenjuleg;
Á sama tíma og kaupmáttur eykst hjá stórum hluta landsmanna verður mikill samdráttur í ferðaþjónustu og öðrum þjónustugreinum ásamt nærri allri menningartengdri starfsemi með tilheyrandi atvinnuleysi og tekjumissi.
Samhliða gríðarlegum samdrætti i ferðaþjónustu eykst veltan í stórum atvinnugreinum, í byggingariðnaði og heild- og smásöluverslun. Á myndinni hér að neðan kemur fram mikil veltuauking í kvikmyndagerð, þar þarf að hafa í huga að þótt velta aukist mikið hefur það ekki mikil áhrif vegna lítils vægis í heildarumsvifum hagkerfisins.
Velta atvinnugreina 2020, mars-október
% breyting frá fyrra ári
Heimild: Hagstofa Íslands (virðisaukaskattsvelta)
- Samhliða gríðarlegu tekjufalli í rekstri veitinga- og gististaða eru laun samkvæmt heildarkjarasamningum að hækka. Enginn gat séð fyrir áhrif kórónuveirunnar en menn máttu vita að við gerð samninganna í byrjun mars 2019 var lítið svigrúm fyrir hækkanir.
- Samkvæmt uppgjöri þjóðhagsreikninga fyrir árið 2020 þurrkast rekstrarhagnaður út í helstu greinum ferðaþjónustunnar á sama tíma og hagur vænkast verulega í byggingarstarfsemi, heild- og smásöluverslun og í fasteignasölu og fasteignaviðskiptum.
- Á sama tíma og almennt atvinnuleysi mældist mestan hluta síðasta árs um 10% dragast tekjur ríkis og sveitarfélaga af launatekjum einstaklinga ekki saman að neinu marki. Að hluta er skýringa að leita í mótvægisaðgerðum stjórnvalda en ekki síður launahækkunum samkvæmt kjarasamningum í byrjun árs 2019 þrátt fyrir erfiða stöðu og lítið svigrúm fyrir kostnaðarhækkanir hjá stærstu útflutningsgrein landsins á þeim tíma.
- Á síðasta ári hækkaði almenna launavísitalan um 6,3% en vísitala neysluverðs um 2,8%. Þá hækkuðu laun opinberra starfsmanna um 7% en laun starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum um 6,1%.
Launaþróun eftir atvinnugreinum
% breyting frá fyrra ári
Heimild: Hagstofa Íslands, mánaðarleg vísitala eftir atvinnugreinum
Staðan er nokkuð óvenjuleg, veikur vinnumarkaður en 3,4% aukning í almennum kaupmætti miðað við launavísitölu, samhliða miklum tilfærslum frá stjórnvöldum til heimila og fyrirtækja í því skyni að örva eftirspurn í hagkerfinu. Þar vega þyngst lenging tekjutengdra bóta, hlutabótaleið, heimild til úttektar á séreignarsparnaði, lokunarstyrkir og viðspyrnustyrkir en ekki síður svokallaðir sjálfvirkir sveiflujafnarar eða innbyggðir velferðarþættir í tekju- og útgjaldaliðum hins opinbera – til að jafna hagsveifluna.
Afleiðingin skilar sér í rúmlega 201 milljarðs kr. halla á ríkissjóði, eða um 6,8% af VLF á árinu 2020. Að viðbættum tekjuhalla sveitarfélaga nemur hallinn 215 milljörðum kr., eða 7,3% af VLF, á árinu 2020.
Í nýrri fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2022-2026 er gert ráð fyrir að á yfirstandandi ári verði hallinn á hinu opinbera um 11,4% af VLF eða rösklega 380 milljarðar kr. Samtals stefnir í að hallinn verði um 600 milljarðar kr. í lok þessa árs. Verður það svo hlutverk samfélagsins alls að borga hallann og þær lántökur sem honum fylgja eða verða farnar óvenjulegar leiðir þegar þar að kemur?
Til samanburðar var hallinn á tímabilinu 2008-2011 að meðaltali um 8,5% af VLF.
Gert er ráð fyrir að skuldir hins opinbera stefni í 1.376 milljarða kr. á yfirstandandi ári eða um 44% af VLF ársins.
Seðlabankinn lækkaði vexti, afnam sveiflujöfnunarauka og var með marga bolta á lofti til að vinna gegn gengissveiflum og verðbólgu.
Á sama tíma og eigið fé fyrirtækja í ferðaþjónustu rýrnar vegna heimsfaraldurs hefur íslenskur fasteignamarkaður og hlutabréfamarkaður sjaldan verið líflegri og verðhækkanir töluverðar.
Lækkun vaxta hefur ekki aukið innviða- og nýfjárfestingu í landinu eins og vonir stóðu til.
Á hinn bóginn hafa lægri vextir hjálpað fyrirtækjum og heimilum að endurfjármagna lán. Það hefur ekki skilað sér jafn vel til fyrirtækja (áhættan meiri/hærri vextir) eins og heimila. Liður í því var að breyta verðtryggðum fasteignalánum í óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Það getur verið skammgóður vermir þegar fram í sækir þegar vextir hækka á ný ef verðbólgan fer á kreik.
Á fyrsta ársfjórðungi ársins hækkaði vísitala neysluverðs um 4,2% frá fyrsta ársfjórðungi 2020 sem skýrist að mestu af verðhækkun innfluttrar vöru vegna lægra gengis í kjölfar farsóttarinnar.
Ástandið á lánsfjármarkaði hefur gerbreyst nú þegar náin tengsl eru á milli vaxta, hagstjórnartækis Seðlabanka og skulda fyrirtækja og heimila.
Einn mælikvarði á efnahagsleg áhrif farsóttar og sóttvarnaaðgerða getur verið hallinn á opinberum búskap til skamms tíma. Gert er ráð fyrir, eins og fram kemur hér að ofan, að hann verði um 600 milljarðar kr. samanlagt í árslok (2021). Það þýðir að áhrif Covid-19 á tekjur ríkissjóðs eru tæplega 1.000 milljónir á dag.
Verkefni samfélagsins næstu árin verður að koma ríkisbúskapnum í sæmilegt jafnvægi.
Til lengri tíma litið getur viðvarandi vöxtur útgjalda umfram tekjur ekki verið sjálfbær. Mesta óvissan nú er hversu lengi ástandið varir. Hversu kröftug viðspyrnan í lífskjarasókninni verður eftir Covid-19 veltur ekki síst á því hve mikill kraftur verður í endurreisn í ferðaþjónustu.
Þegar faraldrar geisa hvílir á stjórnvöldum að tryggja þokkalegt jafnvægi og stöðugleika á mikilvægum mörkuðum til að atvinnulífið geti tekið við sér af fullum krafti. Aðgerðir stjórnvalda hafa verið almennar en hafa jafnframt beinst að því að varðveita framleiðslugetu í ferðaþjónustunni til að viðspyrnan geti orðið snörp þegar faraldrinum lýkur. Það ber að þakka.
Hver áhrifin verða til langs tíma er erfitt að segja til um en val á stefnu skiptir máli. Lágir vextir eiga sannanlega að styðja við viðspyrnu greinarinnar. Nú er meðalgengið á svipuðum slóðum og það var seinni hluta árs 2015 og fyrstu mánuði ársins 2016. Er það „rétt gengi“ fyrir góða viðspyrnu? Fyrir samkeppnisstöðu útflutningsgreina skiptir stöðugt gengi mestu.
Fjárfesting í innviðum hefur ekki farið nægjanlega hratt af stað en margföldunaráhrif þeirra eru þekkt. Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins kemur fram að ástand vegakerfisins er slæmt. Viðhald og endurbætur við aðra flugvelli en í Keflavík hafa verið í lágmarki og svo má heldur ekki gleyma að margar litlar innviðafjárfestingar hafa góð en ekki síður langvarandi áhrif á hagvöxt og velferð.
Í þessari stöðu og í ljósi mikillar óvissu um þróun hagkerfisins og framgang bólusetningar vakna spurningar um hvort ekki sé skynsamlegra að samhliða stórsókn í fjárfestingum yrðu aðgerðir stjórnvalda sértækari og tækju mið af þeim atvinnugreinum sem eru í verulegum vanda en geta með skömmum fyrirvara komið hjólum atvinnulífsins í gang þegar farsóttin er gengin yfir.
Högg í þjónustuútflutningi skýrir samdrátt í landsframleiðslu
Á undanförnum árum hefur það verið þjónustuútflutningur sem hefur stuðlað að hagvexti hér á landi. Að sama skapi er það hrun í eftirspurn erlendra ferðamanna (metsamdráttur í útfluttri þjónustu) sem skýrir samdráttinn í efnahagslífinu.
Það kemur því ekki á óvart að í fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026 er gert ráð fyrir að styrkur efnahagsbatans ráðist fyrst og fremst af því hversu hratt ferðaþjónustan nær sér á strik.
Útflutningur flokkaður niður á atvinnugreinar
milljónir kr.
Heimild: Hagstofa Íslands
Í þessu samhengi má nefna að um langt árabil var ferðajöfnuður í greiðslujöfnuði við útlönd neikvæður hér á landi. Neikvæður ferðajöfnuður þýðir í stuttu máli að gjaldeyriskaup Íslendinga vegna ferðalaga erlendis voru meiri en gjaldeyristekjur af eftirspurn erlendra ferðamanna á innlendum vöru- og þjónustumarkaði. Hins vegar var jöfnuður í fargjaldatekjum íslenskra flugfélaga nokkuð drjúgur, þar skiptu gjaldeyristekjur af tengifarþegum sköpum.
Frá 2013 hefur eftirspurn erlendra ferðamanna hér á landi gert það að verkum að gjaldeyristekjur hafa verið mun hærri en útgjöld Íslendinga á erlendri grundu. Sú þróun átti sinn þátt í að hægt var að greiða niður erlend lán á árunum eftir bankakreppuna sem gerði það að verkum að þjóðarbúið var mun betur í stakk búið til að takast á við áfallið nú en þegar fjármálakreppan skall á.
Uppsafnaður ferðajöfnuður/gjaldeyrisjöfnuður 2010-2020
Verðlag 2020
Heimild: Hagstofa Íslands
Neikvæð áhrif af minni eftirspurn erlendra ferðamanna hér á landi fara ekki á milli mála. Þannig lækka gjaldeyristekjur á síðasta ári um 244 milljarða kr. (sjá töflu hér að ofan). Tekjur af sölu á flugmiðum í erlendri mynt lækka um 109 milljarða kr. Samtals lækkuðu gjaldeyristekjurnar um 353 milljarða kr.
Fall í gjaldeyristekjum í farþegaflugi og ferðaþjónustu getur verið ein vísbending um áhrif Covid-19 farsóttarinnar á gjaldeyrisöflun ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúið.
Helstu þættir samdráttar í þjóðarbúskapnum 2020
Fall í gjaldeyristekjum í farþegaflugi og ferðaþjónustu (þjónustuútflutningi) útskýrir um 11,7% af samdrættinum í þjóðarbúskapnum, minni vöruútflutningur skýrir um 1,8% af samdráttarins. Á síðasta ári lækkuðu útflutningstekjur samtals um 31% á föstu verðlagi sem skýrist af 8,5% lækkun í vöruútflutningi en í 51,2% lækkun á þjónustutekjum á ársgrundvelli.
Framlag (%) undirliða til hagvaxtar
Heimild: Hagstofa Íslands
Á móti lækkar neysla Íslendinga á ferðalagi erlendis um háar fjárhæðir, eða um 116 milljarða kr.
Margir gerðu sér væntingar um að færri ferðalög Íslendinga til annarra landa gætu vegið upp þann samdrátt sem blasti við vegna færri erlendra ferðamanna. Það gekk ekki eftir, jákvætt framlag af minni innfluttri þjónustu til hagvaxtar (5,5 prósentustig) dugði ekki til að vega upp samdrátt í útfluttri þjónustu (-11,7 prósentustig).
Í einkaneyslumælingunni eru meðtalin útgjöld Íslendinga erlendis sem skýrir af hverju framlag hennar til hagvaxtar ársins er neikvætt (-1,6%).
Á nafnverði eykst einkaneysla íslenskra heimila innanlands um 7% milli ára, eða um rúmlega 87 milljarða kr. Fyrirfram hefði mátt búast við meiri samdrætti í einkaneyslu ef horft er til mikils atvinnuleysis og 6,6% samdráttar í þjóðarbúskapnum en hér toga umfangsmiklar aðgerðir stjórnvalda sterkt á móti eins og fjallað er um hér að ofan.
Framlag samneyslu (0,7%) til minni samdráttar segir bara hálfa sögu. Samneyslan eykst um 8,7% (3,1% raunaukning) milli ára eða um 65 milljarða kr. en til viðbótar aukast tilfærslur til heimila (almannatrygginga) um 72 milljarða kr. Þar af nema atvinnuleysisbætur 54 milljörðum kr. og framleiðslustyrkir til fyrirtækja um 26 milljörðum kr.
Jafnframt aukast birgðir í landinu um 18,5 milljarða kr. Jákvætt framlag þessara þátta (0,7%+0,6%) mildar höggið og dregur úr samdrætti í þjóðarbúskapnum.
Það kemur á óvart að fjármunamyndun hins opinbera taki ekki betur við sér en raun ber vitni, þrátt fyrir lága vexti og boðaða sókn stjórnvalda í innviðafjárfestingu til að milda neikvæð efnahagsáhrif farsóttarinnar og byggja undir framtíðarhagvöxt.
Þekkt er að margföldunaráhrif fjárfestingarútgjalda eru meiri og langvinnari en annarra ríkisútgjalda. Á yfirstandandi ári eru stór áform um sókn hins opinbera í innviðafjárfestingu sem ber að fagna. Það verða mikil vonbrigði ef stjórnvöld hreyfa sig ekki hraðar þegar kemur að viðhaldi og uppbyggingu grænna innviða á ferðamannastöðum, sem krefjast ekki mikils fjármagns en tryggja öryggi ferðamanna og betri umgengni. Slíkt kemur öllum íbúum til góða, skapar atvinnutækifæri víða um land og byggir undir höfuðstól náttúrunnar og verndar um leið.
Eitt af aðalsmerkjum ferðaþjónustu sem atvinnugreinar eru víðtæk óbein og afleidd áhrif hennar á aðrar atvinnugreinar
Alþjóðlegt umhverfi krefst alþjóðlegra viðmiða
Tekjutap flug- og ferðaþjónustugeirans er fordæmalaust og hefur mikil áhrif á afkomu fyrirtækja og lífsviðurværi einstaklinga sem starfa innan geirans. Heimsfaraldurinn dró fram í dagsljósið þá áhættuþætti sem fylgja atvinnugrein sem starfar á alþjóðlegum markaði og á allt undir greiðum samgöngum milli landa.
Vöxtur undanfarinna ára í ferðaþjónustu hér á landi hefur aðallega byggst á þjónustu við erlenda ferðamenn. Eins og farið var yfir hér að framan útskýrir fall í útflutningstekjum í farþegaflutningum og ferðaþjónustu að mestu samdrátt í þjóðarbúskapnum á síðasta ári.
Alþjóðlegt umhverfi krefst alþjóðlegra viðmiða. Fyrirtæki í ferðaþjónustu selja vöru og þjónustu á alþjóðlegum markaði. Til að geta metið samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar þarf góða þekkingu á helstu eiginleikum hennar og þýðingu í efnahagslegu, menningarlegu, mannlegu og náttúrulegu tilliti.
Á undanförnum árum hafa hliðarreikningar við hina hefðbundnu þjóðhagsreikninga gegnt sífellt stærra hlutverki í heiminum. Helstu málaflokkar hliðarreikninga eru á sviði félags-, efnahags- og umhverfismála. Samkeyrsla hliðarreikninga í ferðaþjónustu við þessa málaflokka er í mikilli þróun. Réttast er að lunginn af gagnaöflun, vinnslu og miðlun upplýsinga og rannsóknir í greininni styðjist við þann ramma sem alþjóðleg samstaða ríkir um. Vert er að benda á að Kanadamenn gerðu sína fyrstu ferðaþjónustureikninga 1980.
Í Evrópu hafa ríki fest gerð reikninganna í sessi, ekki síst vegna þeirra tilmæla sem koma fram í reglugerð (nr. 692) Evrópuþingsins frá árinu 2011. Þar er lagt til að við kerfisbundna gagnaöflun, -vinnslu og -miðlun á sviði ferðaþjónustu við mat á efnahags-, samfélags- og umhverfisáhrifum skuli hliðarreikningar við þjóðhagsreikninga hafðir í forgrunni. Það er samevrópskur (alþjóðlegur) greiningarrammi sem fjölbreyttar rannsóknir geta nýtt sér.
Ísland er aðili að EES-samningnum en sú hlið samningsins sem snýr að tölfræði á sviði ferðaþjónustu hefur ekki fengið mikla athygli hér á landi. Stjórnvöld hafa kosið að fara séríslenskar leiðir. Í janúar 2020 tók ný reglugerð (nr. 20) gildi um gagnaöflun og rannsóknir á sviði ferðamála. Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar skal „rannsóknaráætlun í ferðaþjónustu“ byggja á grunni Jafnvægisáss ferðamála og stefnumótunar stjórnvalda. Það brýtur sannarlega í bága við þá þróun sem átt hefur sér stað í öðrum löndum undanfarin ár. SAF hafa gert athugasemdir við reglugerðina í Samráðsgátt stjórnvalda og lýst vonbrigðum með að stjórnvöld hafi ekki skuldbundið reglugerð Evrópuþingsins í nýrri rannsóknaráætlun í samræmi við alþjóðleg tilmæli.
Covid-19 hefur afhjúpað það sem flestir vissu; að þeir sem fara/koma frá landinu eru strangt til tekið ekki „allir ferðamenn“ samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum. Þannig er daglega rætt um fjölda ferðamanna í landsmæraskimunum þrátt fyrir að fæstir þeirra séu erlendir ferðamenn/túristar að heimsækja áfangastaðinn Ísland. Íslendingar eru þar fjölmennastir en sennilega flestir aðrir með erlent ríkisfang/vegabréf en með íslenska kennitölu og búsetu við störf hér á landi eða flóttafólk. Úr þessu þarf að bæta.
Auðvitað skiptir afkoma greina ferðaþjónustu mestu máli fyrir greinina en stóra myndin gerir það líka. Vert er að benda á að Ferðamálastofa tók stórt framfaraskref í vinnslu og birtingu fjárhagsupplýsinga í öllum helstu greinum ferðaþjónustu á síðasta ári. Á heimasíðu stofnunarinnar er hægt að skoða fyrirtæki eftir stærð og staðsetningu ásamt lykilupplýsingum um rekstur og fjárhag í helstu undirgreinum atvinnugreinarinnar. Þar eru jafnframt aðgengilegar hráar upplýsingar fyrir notendur á excel-formi fyrir nákvæmari greiningu. Í byrjun árs 2021 kynnti KPMG yfirgripsmikla greiningu fyrir Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála um stöðu í íslenskri ferðaþjónustu 2019. Öll þekkjum við svo hver þróunin varð á árinu 2020.
Verðmætasköpun í ferðaþjónustu
Hagstofa Íslands hefur tekið skref í vinnslu ferðaþjónustureikninga. Enn vantar þó mikið upp á að fyrir liggi fullbúnir reikningar um atvinnugreinina hér á landi. SAF hefur um árabil talað fyrir áreiðanlegum mælingum á samkeppnisstöðu og hagrænum áhrifum greinarinnar í samræmi við vinnu annarra landa og alþjóðastofnana. Markmiðið er að auka þekkingu og skilning á atvinnugreininni í þeirri von að umræðan verði málefnalegri, háttvísari. T.a.m. liggja ekki fyrir góðar mælingar og upplýsingar um hvað margir starfa við ferðaþjónustu né um menntundarstig starfsmanna. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjárfestingu í greininni. Þrátt fyrir það hefur okkur umræða verið um áhrif atvinnugreinarinnar á almenna eftirspurn í landinu, framleiðslu- og launþróun, atvinnustig og lífskjör en minna fer fyrir þeim gögnum sem umræðan byggir á. Það skiptir máli í allri umræðu að samstaða ríki um hvaða mælingar skipta máli.
Upplýsingar um eftirspurn ferðamanna á árinu 2019 liggja fyrir. Þar kemur fram að heildarumfang ferðaþjónustu samkvæmt ferðaþjónustureikninum (e. internal tourism) voru 553 milljarðar kr. Útgjöld eða neysla erlendra ferðamanna var um 390 milljarðar kr. eða um 70% af heildarumfangi (neysla innanlands og flugfargjöld erlendra ferðamanna til áfangastaðarins). Útgjöld innlendra heimila á ferðalagi um landið og á leið til annarra landa námu um 138 milljarðar kr. og ferðalög á vegum vinnuveitenda um 25 milljarðar kr. Hlutfall Íslendinga er það lágt að þeir bæta ekki upp fall í eftirspurn erlendra ferðamanna alla vega ekki til skamms tíma jafnvel þó eftirspurnin innanlands aukist verulega. Rétt er að benda á að meðtalið í útgjöldum innlendra ferðamanna eru útgjöld á leið til annarra lands með íslenskum flugfélögum. Nákvæmir ferðaþjónustureikningar eiga að nýtast sem greiningartæki til að meta af nokkurri nákvæmni bein og óbein áhrif áfalla/samdráttur í ferðaþjónustu á hagkerfi og einstök samfélög.
Ferðaneysla/útgjöld ferðamanna innanlands (e. internal tourism) 2019
Markaðsverð
Heimild: Hagstofa Íslands, Ferðaþjónustureikningar
Í fyrra (2020) lækkaði verðmætasköpun í ferðaþjónustu og tengdum greinum úr 8% af vinnsluvirði í 3,5% milli áranna 2019 og 2020. Það gefur ekki mikla innsýn í hvað liggur hér að baki.
Ef rýnt er í niðurstöður þjóðhagsreikninga er hægt að sjá að laun og launatengd gjöld lækka í helstu greinum ferðaþjónustunnar um 95 milljarða kr., aðföng (innflutt og innlend) dragast saman um 201 milljarð kr. og rekstrarafgangur þurrkast út þegar hann lækkar um 30 milljarða kr. milli ára. Það munar um minna. Samtals lækkar vinnsluvirðið á grunnvirði um 325 milljarða kr. (nafnverð).
Ef gerð er tilraun til að framreikna ofangreindar upplýsingar má gera ráð fyrir að tekjufall í ferðaþjónustu og tengdum greinum hafi verið um 380 milljarðar kr.
Verðmætasköpun í ferðaþjónustu
% af VLF
Heimild: Hagstofa Íslands
Í fyrra var nokkur umræða um að útgjöld Íslendinga á ferðalögum erlendis færðust hingað heim og að það drægi úr því áfalli sem atvinnugreinin varð fyrir vegna hruns í komum erlendra ferðamanna. Í þeirri umræðu bar ýmislegt á góma, m.a. að ferðaneysla Íslendinga innanlands myndi sennilega aukast um 200 milljarða kr. Varð það raunin? Það er hlutverk Hagstofunnar og ferðaþjónustureikninga að svara því ásamt fleiri áleitnum spurningum um kauphegðun íslenskra ferðamanna á árinu 2020.
Ferðahegðun Íslendinga innanlands er önnur og ólík ferðahegðun erlendra ferðamanna. Íslendingar elta sólina, gista í eigin sumarhúsum, á tjaldsvæðum eða hjá ættingjum og vinum. Í því samhengi má benda á að kortanotkun Íslendinga í gistiþjónustu jókst um 19% milli ára í fyrra (2020) – úr tæpum 7 milljörðum kr. í 8,2 milljarða kr.
Til að setja upphæðina í samhengi var velta í veitinga- og hótelrekstri á árinu 2019 um 220 milljarðar kr. Þar af eru um 110 milljarðar kr. í rekstri gististaða, stærsti hlutinn útflutningstekjur af viðskiptum við erlenda ferðamenn. Það er hlutverk ferðaþjónustureikninga að draga það fram. Vægi erlendra ferðamanna í eftirspurn veitingahúsa var 36% árið 2018 en innlendra ferðamanna um 10%. Það var því nokkuð ljóst að innlendir ferðamenn mundu seint vega upp minni eftirspurn erlendra ferðamanna.
Íslendingar ferðuðust sannarlega innanlands síðasta sumar og kynntust þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, en það breytir ekki því að viðskipti og þjónusta við erlenda ferðamenn er hryggjarstykkið í íslenskri ferðaþjónustu eins og fram kemur hér að ofan.
Íslendingar eru jafnframt mikilvægur markhópur margra fyrirtækja og félagasamtaka í ferðaþjónustu innanlands en á undanförnum árum hafa ferðaþjónustufyrirtæki verið að sækja tækifærin á stóran alþjóðlegan markað.
Ferðaneysla/útgjöld ferðamanna innanlands 2019 (e. internal)
Markaðverð
Heimild: Hagstofa Íslands
Íslendingar eru jafnframt mikilvægur markhópur fyrirtækja í ferðaþjónustu þegar kemur að ferðalögum til útlanda. Um langt árabil kusu Íslendingar að ferðast til útlanda með innlendum fyrirtækjum en á undanförnum árum hefur innflutningur á flugfargjöldum aukist með meira sætaframboði frá erlendum flugfélögum. Útgjöld Íslendinga á ferðalagi erlendis námu um 203 milljörðum kr. á árinu 2019, þar af voru um 18 milljarðar kr. vegna kaupa á flugmiðum með erlendum flugfélögum.
Vissulega er hér eftir miklu að slægjast en þá þarf að hafa í huga að stór hluti af útgjöldum Íslendinga á ferðalagi erlendis, rennur til annarra atvinnugreina en ferðaþjónustu. Í gömlum ferðaþjónustureikningum fyrir árið 2010 (þær upplýsingar hafa ekki verið uppfærðar) kemur fram að vægi verslunar í útgjöldum Íslendinga erlendis (án flugmiða) hafi verið um 50% af útgjöldum það ár. Í venjulegu árferði er engin ástæða til að ætla að hlutföllin hafi breyst. Þetta gæti þýtt að útgjöld Íslendinga erlendis í verslun hafi verið 93 milljarðar kr. á árinu 2019. Þá eru eftir útgjöld sem fara til ýmissar menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi. Þá er rétt að halda því til haga að samkvæmt ferðaþjónustureikningum fyrir árið 2019 námu útgjöld erlendra ferðamanna í verslun hér á landi um 56 milljörðum kr. á því ári.
Það má til sanns vegar færa að tilflutningur hafi verið í verslun Íslendinga erlendis hingað heim á síðasta ári. Samkvæmt Rannsóknasetri verslunarinnar eykst innlend verslun um 17,5% árið 2020 eða um 72 milljarða kr., að meðtalinni netverslun sem blómstrað hefur í faraldrinum. Mest var aukning í áfengis- og raf- og heimilistækjaverslun eða um 40% en mestu skiptir 19% aukning í stórmörkuðum, þar jókst veltan um 33 milljarða kr. Fataverslun eykst um 13% eða sem nemur 4,2 milljörðum kr. Þannig er töluverður tilflutningur á útgjöldum til verslunar en þá þarf að hafa í huga að mikið af neysluvörum er innflutt. Hér sannast að áhrif faraldursins eru ólík og ójöfn milli atvinnugreina, sumar avinnugreinar blómstra en aðrar visna. Engin velgengni er án galla.
Áhugavert er að bera ferðaþjónustu hér á landi saman við Nýja-Sjáland. Þar er vægi innlendra ferðamanna í heildarumsvifum ferðaþjónustu um helmingur. Atvinnulífið er fjölbreyttara en það kemur ekki í veg fyrir að lagt sé upp úr góðum innviðum í ferðaþjónustu.
Nýja-Sjáland er þekkt fyrir að nýta sér ferðaþjónustureikninga við greiningu á stöðu greinarinnar þar í landi, samspili hennar við helstu markaði og markmið í hagstjórn. Þar fer fram víðtæk söfnun, greining og miðlun upplýsinga um ferðaþjónustu, fyrir landið í heild og niður á einstök svæði, þ.e. hversu margir erlendir ferðamenn koma, hversu margir eru á áfangastöðum á hverjum tíma fyrir sig og hvaða vörur og markaðssvæði skilja eftir mestu verðmætin. Jafnframt eru birtar spár um mögulega þróun á helstu markaðssvæðum erlendis og innanlands. Enn fremur eru birtar upplýsingar um áhrif ferðamennsku á aðrar atvinnugreinar með því að birta neyslu erlendra ferðamanna á innlendum matvörum og svo eru tíunduð önnur mikilvæg tengsl, s.s. við kvikmyndaframleiðslu í landinu.
Gera þarf nauðsynlegt átak í notkun ferðaþjónustureikninga til að safna, greina og birta upplýsingar um ferðaþjónustu á Íslandi
Eitt af aðalsmerkjum ferðaþjónustu sem atvinnugreinar eru víðtæk óbein og afleidd áhrif hennar á aðrar atvinnugreinar. Hér á landi hefur hún auk þess verið mikilvæg fyrir hagkerfi margra minni sveitar- og bæjarfélaga. Það er hlutverk ferðaþjónustureikninga að draga fram árangur og hagsæld einstakra svæða í ferðaþjónustu. Mikilvægt er að blása til sóknar í gerð reikninganna. Hugmyndafræðin er alþjóðleg, aðferðafræðin heildræn og í góðu samræmi við mat á afköstum hagkerfisins í heild, hagsæld á hvern íbúa og aðra mikilvæga reikninga eins og umhverfisreikninga. Heildrænir ferðaþjónustureikningar eru sá rammi og grunnur sem eðlilegt er að umræða og stefna um atvinnugreinina byggi á.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru einnig vegvísir fyrir atvinnugreinina. Meðal forgangsmarkmiða stjórnvalda við innleiðingu er markmið 8 um viðvarandi sjálfbæran hagvöxt og arðbær og mannsæmandi atvinnutækifæri fyrir alla. Undirmarkmið 8.9 er að eigi síðar en árið 2030 hafi verið mótuð og innleidd stefna í því skyni að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapi störf og leggi áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur. Undir markmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu er lögð áhersla á að ferðaþjónusta leiði af sér störf og ýti undir staðbundna menningu og framleiðslu. Undir markmiði 14 er lögð áhersla á efnahagslegan ávinning af sjálfbærri ferðaþjónustu.
Aðeins með heildstæðum ferðaþjónustureikningum er hægt að meta hvort áætlanir og stefnumótun atvinnugreinarinnar og stjórnvalda hafi skilað tilætluðum árangri.
Áhrifin af faraldrinum komu misjafnlega niður
Snemma árs 2020 urðu orð aðalhagfræðings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Gitu Gopinath, fleyg þegar hún sagði að þessi efnahagslægð væri ólík öllum öðrum (e. crisis like no other) vegna þess að hún hittir atvinnugreinar og einstaklinga með ólíkum og ójöfnum hætti.
Áhrif sóttvarna vegna Covid-19 á farþegaflutninga um heiminn voru gríðarleg. Samkvæmt alþjóðasamtökum flugfélaga (International Air Transport Association (IATA)) náði alþjóðaflug, í heiminum, í apríl á síðasta ári (2020) sínum lægsta punkti í samtímasögu flugrekstrar þegar flugumferðin var um 2% af flugumferð í venjulegu árferði.
Þegar horft er til þess að um 60% af alþjóðlegum ferðamönnum á heimsvísu ferðast með flugi á milli landa koma áhrifin á ferðaþjónustu í heiminum ekki á óvart. Nú er gert ráð fyrir að tapið í flugrekstri 2020, á heimsvísu, verði um 150 milljarðar dollarar. Til að setja þá upphæð í eitthvert samhengi var tapið um 30 milljarðar dollara eftir árásina 11. september 2001. Auknir vöruflutningar milli landa fylla að einhverju leyti í skarðið en munu seint bæta tekjutap flugfélaga af samdrætti í farþegaflutningum.
Á Íslandi var staðan eins, algjört hrun varð í umferð um alþjóðlega flugvöllinn í Keflavík með tilheyrandi áfalli fyrir ferðaþjónustu og nærumhverfi atvinnulífsins á Reykjanesskaga.
Farþegar/ferðamenn um Keflavíkurflugvöll
Heimild: ISAVIA ohf, FMS
Í frétt frá alþjóðasamtökum flugfélaga (International Air Transport Association (IATA)) 19. mars 2021 koma fram fyrstu vísbendingar um að ferðamenn séu hægt og bítandi að byggja upp sjálfstraust til að ferðast milli landa.
Fáar þjóðir eiga jafn mikið undir greiðum samgöngum til og frá landinu og Íslendingar. Þannig eru farþegaflutningar með flugi hornsteinn fyrir áfangastaðinn Ísland. Hagsmunir fyrirtækja í ferðaþjónustu og farþegaflutningar til landsins eru samofin og verða ekki slitin í sundur. Það sama gildir um alþjóðlegt samstarf um bóluefni og bólusetninar. Stóra verkefnið er að skapa skilyrði til að hægt sé að aflétta sóttvarnaaðgerðum til að verðmætasköpun geti hafist á ný og samfélög komist í eðlilegt horf. Þar liggja stóru hagsmunirnir.
Nú bendir allt til þess að bandaríska flugfélagið Delta Air Lines muni hefja daglegt flug til Íslands og þriggja borga í Bandaríkjunum í maí næstkomandi. Auk Delta mun bandaríska flugfélagið United Airlines hefja flug frá Newark- flugvelli, sem er gríðarlega stórt markaðssvæði, í byrjun júní.
Enn ríkir þó mikil óvissa. Allt byggist þetta enn á ákvörðunum íslenskra stjórnvalda og framgangi bólusetningar. Farþegar með Delta þurfa að sýna bólusetningarvottorð eða færa sönnur á að þeir hafi fengið Covid-19. Ef marka má fréttir vekur gosið í Geldingadölum mikla athygli líkt og Eyjafjallajökull gerði á sínum tíma, sællar minningar.
Flugfélög úti um allan heim hafa verk að vinna við að byggja upp með samhæfðum hætti sjálfstraust meðal ferðalanga um að hægt sé að ferðast með öruggum hætti.
Mikilvægt er fyrir flug- og ferðaþjónustu í landinu að koma sem fyrst upp alþjóðlegu farþegaflugi um Keflavíkurflugvöll. Tengiflug Icelandair hefur sennilega verið stærsta markaðssetning Íslands í borgum erlendis um langt árabil. Það verður stökkpallur fyrir enduruppbyggingu í öðrum atvinnugreinum í ferðaþjónustu. Ef marka má fréttir af áhuga innlendra og erlendra flugfélaga á að fljúga til og frá landinu má búast við harðri samkeppni á flugmarkaði næstu misserin.
Faraldurinn lét engan ósnortinn
Mörg fyrirtæki stóðu frammi fyrir gríðarlegum fjárhagsvanda. Fyrirtæki og félagasamtök í ferðaþjónustu urðu mörg óstarfhæf en þurftu samt sem áður að greiða laun, skuldir, veð eða leigu og þá skipti ekki máli á hvaða markaði þau störfuðu. Flest fyrirtækjanna voru alfarið háð alþjóðamörkuðum, sum, aðallega félagasamtök, voru að mestu að þjóna Íslendingum á ferðalagi innanlands, önnur að þjónusta Íslendinga á leið til annarra landa og mörg voru á báðum mörkuðum. Þá skipti venjubundin neysla heimilanna í landinu, og viðskipti við atvinnulífið almennt, mismiklu máli fyrir rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Mikilvægt er að kortleggja vel snertifleti fyrirtækja í ferðaþjónustu, finna hlutmengi yfir þau forgangsverkefni sem styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar eftir Covid-19. Samkeppni milli áfangastaða verður gríðarlega mikil.
Áhrifin voru mismunandi milli landshluta. Sveitarfélögin í landinu treysta mismikið á ferðaþjónustu og enn er nokkur árstíðasveifla í greininni fyrir utan stórhöfuðborgarsvæðið.
Ferðaþjónusta hefur verið mikill drifkraftur framfara á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. Vægi höfuðborgarsvæðisins (+Reykjanesbær) er hátt. Stærstu hótelin og veitingastaðirnir eru í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Ef tekið er mið af upplýsingum um staðgreiðsluskyldar tekjur einstaklinga (sem launagreiðendur (fyrirtæki) greiða til starfsmanna er hlutfall Reykjavíkur í heildarlaunagreiðslum í rekstri veitinga og gististaða yfir 40% og höfuðborgarsvæðisins um 70%.
Staðgreiðsluskyldar tekjur einstaklinga í rekstri veitinga- og gististaða 2019
Innbyrðis hlutdeild (%)
Heimild: Hagstofa Ísland
Stærstu hótelin eru á höfuðborgarsvæðinu. Vægi þess í heildarfjölda (ekki verðmætum) gistinótta á hótelum hefur verið um 60% á undanförnum árum. Helstu viðskiptavinir fyrirtækja í hótelrekstri eru erlendir ferðamenn. Vægi þeirra í heildarfjölda gistinótta á höfuðborgarsvæðinu var um 93% á árinu 2019. Það kom því ekki á óvart að framboð á gistirými skyldi dragast snöggt saman í byrjun faraldurs þegar fyrirtæki ákváðu að fara í einhvers konar hýði og bíða af sér ástandið. Í apríl fækkaði framboðnum herbergjum yfir 50% – í árslok er staðan sú sama.
Framboð herbergja á hótelum
% breyting milli mánaða 2020
Heimild: Hagstofa Íslands
Aukin ferðalög Íslendinga um landið voru vissulega jákvæð og nauðsynleg en yfir 90% af viðskiptavinum í rekstri hótela eru erlendir ferðamenn.
Framboð herbergja á hótelum 2020
% breyting milli mánaða
Heimild: Hagstofa Íslands
Af rúmlega 380 fyrirtækjum sem urðu gjaldþrota á árinu 2020 voru 46 í veitingahúsarekstri (2019 voru þau 35) og 20 í rekstri hótela og gistiheimila (2019 voru þau níu). Í rekstri bílaleiga var fjöldi gjaldþrotabeiðna tvær. Samtals urðu 12 fyrirtæki í rekstri ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og annarrar bókunarþjónustu gjaldaþrota 2020 en 2019 voru þau níu.
Gjaldþrot eru alltaf erfið en í upphafi árs mátti eiga von á að þau yrðu fleiri en raun varð á – í raun er ákveðið þrekvirki að gjaldþrotin skyldu ekki verða fleiri. Aðgerðapakkar stjórnvalda hafa gert fyrirtækjunum kleift að bregðast við ástandinu og fara í einhvers konar hýði og bíða. Í því samhengi voru um mitt sumar 2020 samþykkt lög sem veittu fyrirtækjum, með einföldum aðgerðum, tímabundna heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar vegna þeirrar miklu óvissu sem þau stóðu frammi fyrir vegna heimsfaraldurs. Það veitti fyrirtækjum tækifæri og skjól til að endurskipuleggja reksturinn.
Í heimsfaraldri þarf að lágmarka tjón
Miklum fjárfestingum fyrirtækja í ferðaþjónustu undanfarin ár fylgja eðlilega lántökur og skuldir. Við kjörskilyrði skipta lausafjárkröfur, skuldakröfur og kröfur um eiginfjárhlutföll eðlilega máli en þegar heimsfaraldur geisar skiptir bara eitt máli; að lágmarka tjón lífvænlegra fyrirtækja, þ.e. þeirra fyrirtækja sem eru með góða framlegð í eðlilegu árferði, fyrir veirufaraldur.
Í nýrri fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans námu skuldir fyrirtækja í ferðaþjónustu um 293 milljörðum kr. í árslok 2020. Skuldirnar jukust um tæpa 30 milljarða kr. milli ára sem skýrist aðallega af fjárfestingum í gistirými í Reykjavík sem voru þegar hafnar fyrir faraldur. Auk þess jukust skuldir vegna frestaðra afborgana og vaxtagreiðslna á árinu og nýrra stuðnings- og viðbótarlána sem njóta ríkisábyrgðar.
Útlán kerfislega mikilvæga banka (KMB) til ferðaþjónustu
milljarðar kr.
Í skýrslunni kemur líka fram að um þriðjungur af útlánum til fyrirtækja í ferðaþjónustu er lán í erlendum gjaldeyri sem er í samræmi við það sem gengur og gerist almennt. Það þýðir að gengisbreytingar hafa áhrif á skuldastöðu fyrirtækja í íslenskum krónum.
Heildarskuldir fyrirtækja stóðu nokkurn veginn í stað milli ára þannig að hlutfall skulda í ferðaþjónustu hækkar og er nú sögulega hátt, eða um 20% af heildarútlánum til fyrirtækja í atvinnulífinu. Að einhverju leiti skýrist það af lækkun á gengi krónunnar.
Vandi greinarinnar kristallast sennilega best í því að niðurfærsla á lánum til greinarinnar jukust um tæpa 17 milljarða kr. á síðasta ári.
Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa nú á annað ár staðið í miðjum veirustormi. Það kemur því ekki á óvart að stór hluti (62%) af útlánum bankanna til greinarinnar hafi fengið almennt greiðsluhlé til að milda vanskil. Hátt hlutfall útlána í greiðsluhléi auk útlána í frystingu er lýsandi dæmi um áhrif faraldursins á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Ef dregst á langinn að ráða niðurlögum faraldursins hér og erlendis er viðbúið að áfallið verði meira.
Verkefnið framundan er að greiða úr skuldavanda fyrirtækja í ferðaþjónustu á uppbyggilegan hátt og ganga út frá því að lánveitendur fái borgað. Óvissan er hvenær.
Það eru margir sem eiga hagsmuni undir því að það gangi vel.
Á málstofu sem haldin var hjá KPMG í byrjun árs 2021 kom fram að aðeins 1% fyrirtækja bjóst við að þurfa að hætta starfsemi á þessu ári. 7% eru í sameiningarferli en 92% ætla að halda sínu striki.
Það gefur tilefni til aukinnar bjartsýni.
Í könnun SA í febrúar 2021 töldu 67% stjórnenda fyrirtækja í ferðaþjónustu aðgerðir stjórnvalda hafa verið gagnlegar
Aðgerðir stjórnvalda
Án aðgerða stjórnvalda hefði áfallið verið mun meira. Stóra verkefnið á árinu var að bregðast við þeim fordæmalausu aðstæðum sem kórónuveiran skapaði fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Enginn rekstur getur verið án tekna eða búið við verulegt tekjufall til langs tíma. Óvissan var yfir og allt um kring, verkefnin mörg og ólík í fjölbreyttri og dreifðri atvinnugrein.
Stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og viðskiptabankar voru sammála um að aðgerðaleysi gagnvart atvinnulífinu þýddi að stefna myndi í óefni. Helstu ráðstafanir fólu í sér lækkun á tryggingagjaldi tímabundið, veittir voru greiðslufrestir á ýmsum opinberum gjöldum, gistináttaskattur felldur niður tímabundið og skattar lækkaðir. Lögð var áhersla á að verja framleiðslugetu „lífvænlegra fyrirtækja“, þ.e. fyrirtækja sem voru með góða framlegð í eðlilegu árferði – fyrir heimsfaraldur. Markmiðið var og er að gera fyrirtækjum kleift að halda áfram rekstri þegar farsóttin með tilheyrandi sóttvörnum verður gengin yfir. Seðlabankinn lækkaði vexti og skapaði svigrúm fyrir lánveitendur til að veita lán, greiðslufresti og endurskipuleggja skuldir fyrirtækja og heimila í vanda. Jafnframt beitti Seðlabankinn gjaldeyrisforðanum til að skapa stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.
Áhersla stjórnvalda var að gera frekar of mikið en of lítið til að koma í veg fyrir langvarandi áhrif af faraldrinum. Hér eins og annars staðar í heiminum var gert ráð fyrir að samdrátturinn í hagkerfinu væri V-laga, stuttur og skammvinnur. Hagstjórn, stjórn heildareftirspurnar í þjóðarbúskapnum, tæki mið af því. Jafnframt var lögð þung áhersla á að gott svigrúm væri til staðar eftir eitt lengsta hagvaxtarskeið í hagsögu landsins þar sem vöxtur í ferðaþjónustu átti stóran hlut að máli. Vísað var í sterka stöðu á flesta mælikvarða; traustan gjaldeyrisforða, jákvæða erlenda eignastöðu, afgang á vöru- og þjónustujöfnuði og raungengi í nokkuð góðu jafnvægi; lága vexti, verðbólgu í kringum markmið og góða stöðu á fjárhag hins opinbera.
Samtal SA og SAF við stjórnvöld um áherslumál félagsmanna var virkt og þrátt fyrir að menn hafi ekki alltaf verið fullkomlega sammála um áherslur staðfestir tölfræðin yfir úrræðin að þau hafa verið nýtt og sannanlega komið í veg fyrir fjöldagjaldþrot. Í nýlegri könnun Samtaka atvinnulífsins meðal forsvarsmanna fyrirtækja telja 67% stjórnenda fyrirtækja í ferðaþjónustu aðgerðir stjórnvalda hafa verið gagnlegar og er hlutastarfaleiðin sú aðgerð sem gagnast fyrirtækjum mest.
Mótvægisaðgerðir stjórnvalda
milljónir kr.
Mestan stuðning fékk Icelandair Group, stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Hægt er að túlka ríkisábyrgð á lánalínum til félagsins, styrki vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti og almenna þátttöku í velheppnuðu hlutafjárútboði sem samfélagslega yfirlýsingu um mikilvægi þess að fyrirtækið haldi velli. Það er forsenda fyrir viðspyrnu íslenskrar ferðaþjónustu.
Virðiskeðja flugrekstrar fyrir lítið, opið eyríki er mun lengri og fjölbreyttari fyrir þjóðarbúskapinn en sá hluti sem fyrirtækið sjálft hefur í hendi sér. Flugrekstur er hluti af grunninnviðum landsins og grundvöllur alþjóðaviðskipta á mikilvægum sviðum.
Áherslur stjórnvalda voru á fólkið sem var að missa vinnuna, sem kemur að sjálfsögðu fyrirtækjum óbeint til góða en er ekki algilt. Í mikilli óvissu var tekin ákvörðun um að endurvekja hlutabótakerfið og greiða laun samhliða minnkuðu starfshlutfalli til að koma í veg fyrir að fólki væri sagt upp. Í byrjun var útfærslan mjög rúm og nýttu margir sér úrræðið enda hvöttu stjórnvöld öll fyrirtæki til að sækja um og nýta sér úrræðið. Í byrjun júlí var hlutabótaleiðin framlengd en skilyrðin hert enda kom upp mikil gagnrýni á stöndug fyrirtæki fyrir að nýta sér úrræðið. Það fór að renna upp fyrir fólki að faraldurinn mundi dragast á langinn þannig að það dró verulega úr virkni úrræðisins. Að auki voru greidd laun þeirra sem þurftu að sæta sóttkví.
Atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli
milljónir kr.
Alls námu mótvægisaðgerðir vegna hlutabóta 24,5 milljörðum kr. og runnu um 44% af þeirri upphæð til einstaklinga sem störfuðu við ferðaþjónustu.
Atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli
Fjöldi viðtakenda
Heimild: Hagstofa Íslands
Jafnframt var gripið til þess ráðs að greiða laun starfsmanna á uppsagnarfresti til að gera fyrirtækjum kleift að aðlaga sig hratt gríðarlegum tekjusamdrætti, komast í skjól, forðast gjaldþrot. Lunginn af fjárhæðinni, 11,3 milljarðar kr., rann til starfsmanna fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Atvinnuleysisbætur í minnkuðu starfshlutfalli og aukin fjáraukning til Isavia ohf.
milljónir kr.
Heimild: Hagstofa Íslands, ríkisreikningur, fjármálaáætlun 2022-2026.
Samkvæmt Hagstofunni nam heildarumfang mótvægisaðgerða tæplega 60 milljörðum kr. í byrjun árs 2021. Áætlað hlutfall atvinnugreina í ferðaþjónustu er um 56%. Að viðbættri hlutafjáraukningu og auknu framlagi í fjáraukalögum til ISAVIA ohf. nema aðgerðirnar um 79 milljörðum kr.
Í lok nóvember 2020 voru kynntar nýjar björgunaraðgerðir til fyrirtækja sem orðið höfðu fyrir verulegu tekjufalli vegna sóttvarnaaðgerða. Fyrst komu tekjufallsstyrkir að umfangi 23,3 milljarðar kr. og í framhaldinu viðreisnarstyrkir til rekstraraðila sem hafa orðið fyrir a.m.k. 60% tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til og með 31. maí 2021, samanborið við sömu almanaksmánuði árið 2019. Gert er ráð fyrir að samtals gætu þeir numið um 20 milljörðum kr.
Aðrar björgunaraðgerðir, s.s. stofnun Ferðaábyrgðasjóðs, ferðagjöfin, afnám gistináttaskatts og undirbúningur markaðsátaks, telja líka.
Atvinnuleysi í veiruóveðri
Til mótvægisaðgerða gegn faraldrinum var sjálfvirkum sveiflujöfnurum leyft að virka til fulls. Þannig hækkuðu almennar atvinnuleysisbætur um 31 milljarð kr. á síðasta ári, fóru úr 23 milljörðum kr. á árinu 2019 í 54 milljarða kr. Jafnframt voru atvinnuleysisbætur hækkaðar og tímabilið lengt.
Ekki hefur tekist að girða fyrir stóraukið atvinnuleysi þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda og góð viðbrögð fyrirtækja. Þar ræður óvissan mestu. Í mars 2020 voru 14.054 manns atvinnulausir í almenna kerfinu, eða 6,8% af vinnuafli í landinu. Þar af voru um 2.700 manns sem höfðu starfað í ferðaþjónustu, eða um 19%. Í apríl 2020 voru um 33.000 manns skráð á hlutabótum, þar af höfðu um 13.600 manns starfað í ferðaþjónustu, eða 41% af heildarfjölda þeirra sem voru á hlutabótum.
Í lok febrúar 2021 fjölgaði atvinnulausum í 21.352 manns og var skráð atvinnuleysi 10,3%. Fjöldi starfsmanna á hlutabótaleið var 4.331 á sama tíma. Ef þeir starfsmenn eru taldir með er atvinnuleysi samkvæmt Vinnumálastofnun um 12,4%, eða 25.600 manns. Hlutfall þeirra sem höfðu starfað í ferðaþjónustu og voru enn á hlutabótum var 62% í lok febrúar 2021.
Fjöldi atvinnulausra eftir atvinnugreinum, mars 2020 og febrúar 2021
Innbyrðis hlutfall
Heimild: Vinnumálastofnun
Tölurnar tala sínu máli, áfallið er áberandi mest hjá þeim starfsmönnum sem störfuðu í ferðaþjónustu sem vekur aftur upp spurningar hvort aðgerðir hefðu mátt vera markvissari, sértækari. Tíminn mun leiða það í ljós. Það er áhyggjuefni ef viðbrögð við veirunni koma hlutfallslega verr niður á ákveðnum geirum og getur það getur leitt til aukins ójafnaðar þegar fram í sækir. Það er hlutverk stjórnvalda að koma í veg fyrir það og veita þeim stuðning sem á þurfa að halda.
Innan SAF var rætt um hvort hægt væri að slá skjaldborg um atvinnugreinina og gera eins og lög heimila í fiskvinnslu vegna hráefnisskorts. Fyrirtækjum í ferðaþjónustu væri gert kleift að taka starfsmenn strax af launaskrá og um leið gætu þeir skráð sig á atvinnuleysisskrá. Það hefði kallað á sértækar aðgerðir sem fékk ekki hljómgrunn. Rökin voru þau að þrátt fyrir að áhrifin væru mest í ferðaþjónustu væri áhrif veirufaraldursins að finna víðar í efnahagslífinu. Það má að einhverju leyti til sanns vegar færa.
Mikið atvinnuleysi er meðal erlendra ríkisborgara. Í lok febrúar 2021 var 8.671 erlendur ríkisborgari í atvinnuleit hér á landi og vert að minnast þess að erlent vinnuafl var mikill liðsauki á tímum mikils vaxtar í ferðaþjónustu.
Íslenskt hagkerfi er lítið og þekkt fyrir að vera sveigjanlegt og hreyfanleiki milli atvinnugreina mikill. Í faröldum er sennilega minna svigrúm fyrir nýja vaxtarbrodda. Áhyggjuefnið nú er ef áhrif af heimsfaraldri eiga eftir að verða langvinn í ýmsum atvinnugreinum. Þar á meðal er ferðaþjónusta. Lágt atvinnustig yfir langan tíma er gríðarlega dýrt fyrir samfélagið.
Samfélagsábyrgð íslenskrar ferðaþjónustu
Nú þegar hillir undir að viðspyrna íslenskrar ferðaþjónustu geti hafist er mikilvægt að horfa til þeirrar framtíðar sem við viljum að atvinnugreinin skapi sér. Þá er ekki einungis mikilvægt að horfa til efnahagslegra þátta heldur einnig til umhverfis- og samfélagslegra. Loftslagsvandinn vofir enn þá yfir, hann er enn stór hnattræn áskorun.
Undir lok árs 2019 endurskrifaði nefnd SAF um samfélagsábyrgð stefnu samtakanna í umhverfismálum. Markmið stefnunnar er að fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi sjálfbæra nýting auðlinda og ábyrga stjórnarhætti að leiðarljósi. (https://www.saf.is/umhverfismal/) Stefna samtakanna er að vera partur af framtíðarsýn Sameinuðu þjóðanna sem birtast í heimsmarkmiðunum um sjáfbæra þróun. Innleiðing þeirra er í góðu samræmi við grunnþætti í stefnu SAF um framtíðarvöxt í ferðaþjónustu. Nefndin mun kynna stefnuna og fylgjast vel með framvindu markmiðanna, auk þess að leggja áherslu á hvatar stjórnvalda séu í samraæmi við þá átt. Jafnframt mun hún fræða og miðla upplýsingum til félagsmanna um þau verkefni sem eru í gangi. Helstu verkefnin sem eru í gangi núna er samstarfsverkefnið „Ábyrg ferðaþjónusta“ sem unnið er með Íslenska ferðaklasanum.
Samtök ferðaþjónustunnar taka jafnframt þátt í ýmsum verkefnum á sviði samfélagsábyrgðar. Þau helstu eru loftslagsstefna atvinnulífsins, sem er samstarfsverkefni aðildarfélaga SA og Bændasamtaka Íslands, og verkefni um orkuskipti í samgöngum með áherslu á orkuskipti hjá bílaleigum.
Ísland er nú þegar leiðandi í ýmsum málaflokkum þegar kemur að samfélags- og umhverfismálum. Með samstilltu átaki íslenskrar ferðaþjónustu getur áfangastaðurinn Ísland einnig náð þeim árangri.
Lokaorð
Aukinn hreyfanleiki um heiminn hefur skilað miklum efnahagslegum ávinningi fyrir stóran hluta íbúa heimsins. Lærdómur síðasta árs er að faraldrar og viðbrögð við þeim geta sannarlega sett strik í þá þróun.
Í nýrri skýrslu Deloitte (Building The Resilient Organization) kemur fram að stjórnendur fyrirtækja óttast að álíka faraldur og Covid-19 muni koma til með að dúkka upp öðru hverju í framtíðinni. Þá skipti máli að missa ekki sjónar á langtímamarkmiðum en vera jafnframt í stakk búin að mæta óvæntum áskorunum. Að mati stjórnenda víðs vegar um heiminn, þar á meðal íslenskra, eru fimm helstu eiginleikar þrautseigju í rekstri þessir; undirbúningur, aðlögunarhæfni, samvinna, traust og ábyrgð.
Á undanförnum árum hafa það verið þjónustuviðskipti á heimsvísu, heimshorna á milli, sem leitt hafa heimsviðskiptin. Covid-19 hefur veikt þá þróun. Heimsfaraldurinn hefur hrundið af stað fjölbreyttum takmörkunum við landamæri til að hemja útbreiðslu faraldursins og það verður jafnvægislist að vega saman heilsufarsáhættu og opnun landamæra á ný. Framundan er áfram langhlaup á mörgum sviðum en jafnframt kapphlaup um nýsköpun og bestu lausnirnar í harðri alþjóðlegri samkeppni.
Ferðaþjónustan á Íslandi þekkir flest veðrabrigði. Árið 2020 kom okkur þó sannarlega á óvart og lærdómskúrfan var brött. Í könnun sem SAF og íslenski ferðaklasinn gerði í byrjun janúar 2021 kemur fram að 92% fyrirtækja ætla að halda sínu striki eftir faraldurinn. Það kemur ekki á óvart. Á tímum breytinga þarf að hugsa upp nýjar lausnir og byggja upp nýja þekkingu byggða á reynslu, það er besta mótefnið til að samfélagið allt geti farið að olnboga sig yfir í nýja og betri tíma.