Skip to content

Fræðsla í ferðaþjónustu

Menntun, þjálfun og hæfni starfsfólks og stjórnenda er lykilþáttur í uppbyggingu fagmennsku og gæða í íslenskri ferðaþjónustu og mun verða einn af mikilvægustu þáttunum til uppbyggingar inn í framtíðina að loknum heimsfaraldri.

Á undanförnum árum hafa SAF látið hæfni, mennta- og fræðslumál sig miklu máli varða, enda er hæfni stjórnenda og starfsmanna forsenda aukinnar verðmætasköpunar í greininni. Mikilvægt er að auka arðsemi og samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu og auk þess hafa áhrif á gildismat og viðhorf stjórnenda og starfsfólks til hæfniuppbyggingar, símenntunar og þjálfunar.

Þessi vinna hefur þróast yfir í mikið og gott samstarf í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar en SAF hafa leitt þá vinnu frá árinu 2017 í stýrihóp Hæfnisetursins sem vistað er sem verkefni hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins til ársins 2023.  Fjölbreyttur hópur hagaðila úr fyrirtækjum innan SAF og samstarfsaðila kemur að starfi Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, auk þess sem Hæfnisetrið er í samstarfi við fræðsluaðila, framhaldsskóla og háskóla víða um land í tengslum við mótun formlegs náms í ferðaþjónustu á forsendum ferðaþjónustunnar.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem orðið hefur fyrir mestum skaða af völdum COVID-faraldursins. Mikilvægt er að við nýtum þennan tíma vel til að endurhugsa, bæta og breyta á sama tíma og mikilvægt er að viðhalda þeirri þekkingu og hæfni sem nú þegar er fyrir hendi.

Í Framtíðarsýn ferðaþjónustu til 2030 segir: „Íslensk ferðaþjónusta sem er leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri þróun stuðlar að bættum lífskjörum og hagsæld og er þekkt fyrir gæði, fagmennsku og einstaka upplifun.“

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar

Í lok árs 2020 var undirritaður nýr þjónustusamningur milli Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um áframhaldandi verkefni í tengslum við stuðning og uppbyggingu gæða í ferðaþjónustu til næstu þriggja ára. Samningurinn tryggir að áfram verði unnið að því að auka fagmennsku, starfsánægju og arðsemi ferðaþjónustunnar en er jafnframt viðurkenning á því góða starfi sem unnið hefur verið innan Hæfnisetursins.

Í ársskýrslu Hæfnisetursins gefst gott yfirlit yfir verkefni og árangurinn af starfinu síðastliðin þrjú ár. Litið er  til framtíðar og ný verkefni kynnt sem ættu að geta auðveldað fyrirtækjum að taka á móti auknum straumi ferðamanna þegar losnar um hömlur.

Áherslur í samningi Hæfniseturs og atvinnuvegaráðuneytis 2021-2023

 • Vinna að stefnu ANR í ferðamálum til 2030 á sviði hæfni, gæða og þekkingar í ferðaþjónustu.
 • Tengja vinnu Hæfnisetursins við starf og stefnumótun við svæðisbundin stoðkerfi og áherslur landshluta í samvinnu við hagsmunaaðila.
 • Greina möguleika á og aðstoða við að koma á klasasamstarfi í fræðslu og hæfniaukningu í ferðaþjónustu.
 • Auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu til nýsköpunar og nýta nýjar lausnir í stafrænni þróun.
 • Þróa, fylgja eftir og markaðssetja þrepaskipt starfsnám í greininni í samráði og samvinnu við hagsmunaaðila.
 • Vinna að auknu samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, hagsmunaaðila og fræðsluaðila með aukna hæfni starfsmanna í ferðaþjónustu að leiðarljósi.
 • Aðstoða hagsmunaaðila við hvatningu til fyrirtækja og einstaklinga um að taka þátt í úrræðum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.
 • Þróa aðferðir í fræðslu, þ. á m. rafrænar aðferðir, í samvinnu við fræðsluaðila og miðla innlendum sem erlendum nýjungum um fræðslu.
 • Auka hæfni starfsmanna í ferðaþjónustu í ljósi breyttra aðstæðna og áherslna á sviði öryggis, ferðavilja, upplýsinga, sjálfbærni og fleiri áherslna.

Nýtt formlegt nám í ferðaþjónustu

Eitt af markmiðum nýs þjónustusamnings er að koma á þrepaskiptu námi í ferðaþjónustunni með möguleikum á að samtvinna starfsnám, framhaldsfræðsluna og formlega skólakerfið. Hæfnisetrið hafði frumkvæði að því að leiða vinnu í framhaldi af útgáfu skýrslunnar Hæfni er grunnur að gæðum þar sem fram komu þarfir atvinnulífsins fyrir nám í ferðaþjónustu. Stofnaður var stýrihópur um formlegt nám með það fyrir augum að þróa í samstarfi skólastiga námslínu eða námslínur til undirbúnings starfa í ferðaþjónustu. Í hópnum voru fulltrúar menntamálaráðuneytis, starfgreinaráðs hótel- og matvælagreina, fræðsluaðila, framhaldsskóla og háskóla. Um er að ræða fjölbreytt og hagnýtt þrepaskipt starfsnám. Stefnt er að því að námskráin verði tilbúin haustið 2021.

Stefnt er að því að námskrá um nýtt fjölbreytt
og hagnýtt þrepaskipt starfsnám í ferðaþjónustu verði til haustið 2021

Menntamorgunn ferðaþjónustunnar

Til að koma því á framfæri sem efst er á baugi varðandi hæfni og gæði ferðaþjónustunnar á Íslandi heldur Hæfnisetrið fundaröð í samstarfi við SAF undir heitinu Menntamorgnar ferðaþjónustunnar. Á síðasta ári voru haldnir tveir slíkir fundir, sá fyrri í upphafi árs með áherslu á erlent starfsfólk í ferðaþjónustu og sá síðari í lok árs undir yfirskriftinni Ferðamennska morgundagsins. Að jafnaði mæta um 50 manns á fundina en óvenju góð þátttaka var á þann síðarnefnda þar sem rúmlega 100 þátttakendur fylgdust með beinu streymi frá fésbókarsíðu Hæfnisetursins. Í könnun sem send var út eftir fundinn sögðu 91% svarenda efni hans hafa verið mjög eða frekar gagnlegt. Var þetta í fyrsta skipti sem fundurinn fór fram eingöngu rafrænt.

 1. Erlent starfsfólk. Hæfnisetrið og SAF beindu sjónum að erlendu starfsfólki á Menntamorgni ferðaþjónustunnar sem fram fór í Húsi atvinnulífsins í febrúar. Fram komu dr. Hallfríður Þórarinsdóttir, Vilborg Helga Júlíusdóttir, hagfræðingur SAF, og Rakel Steinvör Hallgrímsdóttir, náms- og starfsráðgjafi. Þá var birt viðtalsmyndband þar sem heyra mátti sögur þeirra Charo Celeste Elizalde frá Filippseyjum, Stefano Silverio frá Ítalíu og Justyna Cisowska frá Póllandi, sem öll hafa reynslu af því að starfa á íslenskum vinnumarkaði.
 2. Ferðamennska morgundagsins. Rætt var um breytingar og tækifæri í ferðaþjónustu á Íslandi í kjölfar heimsfaraldurs á Menntamorgni ferðaþjónustunnar sem fram fór í lok árs undir yfirskriftinni Ferðamennska morgundagsins. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, kynnti vísbendingar um breytingar á ferðatilhögun með vísan í skýrslu frá WTTC og stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja miðluðu af reynslu sinni og sögðu frá því hvernig þeir ætla að undirbúa fyrirtæki og starfsfólk fyrir komandi tíma. Gunnar sagði meðal annars að samstarf ferðaþjónustufyrirtækja væri gríðarlega mikilvægt fyrir farveg greinarinnar.

Menntadagur atvinnulífsins 2021 – Færni til framtíðar

Menntadagurinn er árlegur viðburður en að þessu sinni var fjallað um færni til framtíðar og byggt á topp tíu færniþáttum Alþjóðaefnahagsstofnunarinnar fyrir árið 2025. Að deginum stóðu Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samorka, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Íslandshótel hlutu Menntaverðlaun atvinnulífsins 2021

Íslandshótel eru menntafyrirtæki atvinnulífsins árið 2021 en fyrirtækið rekur hótelkeðju sem í eru 17 hótel um land allt með tæplega 1.800 herbergjum. Endurspeglar uppbygging félagsins mikinn vöxt ferðaþjónustunnar síðastliðinn áratug en um leið þær fjölmörgu áskoranir sem slíkum vexti fylgja í mannauðsmálum sem leggur grunninn að gæðum þjónustunnar og ánægðum viðskiptavinum. Félagið hefur á markvissan hátt tengt saman uppbyggingu á fræðslu og þjálfun starfsfólksins við heildarstefnumótun sína sem tryggir að allt starfsfólk þess fær staðlaða, markvissa og stefnumiðaða fræðslu.

Raunfærnimat – staðfesting á færni skiptir alla máli

Tilraunaverkefni þar sem raunfærnimat fer fram á móti hæfniviðmiðum starfa. Hæfniviðmið starfa eru mótuð með atvinnulífinu og síðan er metið hvernig einstakir starfsmenn standa gagnvart þeim. Þar sem nægileg hæfni eða þekking er ekki til staðar fer fram þjálfun í þeim þáttum á vinnustað og í kjölfarið fær starfsmaðurinn staðfestingu á sinni hæfni. 

Markmið verkefnisins eru að:

 • þróa aðferðafræði við mat og staðfestingu á færni sem aflað hefur verið utan formlega skólakerfisins en nýtist á vinnumarkaði
 • þróa leiðir til færniuppbyggingar, m.a. með starfsþjálfun í kjölfar raunfærnimats
 • leggja grunn að sjálfbæru kerfi sem nýtur trausts atvinnulífs og fræðsluaðila

Tilraunaverkefni

Í desember 2020 lauk tilraunverkefninu Raunfærnimat á móti viðmiðum starfa. Verkefninu var stýrt af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) í samstarfi við Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) frá desember 2018 til desember 2020. Verkefnið var styrkt af Fræðslusjóði. 

Unnið var með fimm störf en tvö eftirtalin tengdust ferðaþjónustu: starf í móttöku á gististöðum og þjónusta í sal.  Mikið samstarf er við fyrirtæki þegar kemur að framkvæmd raunfærnimats og starfsþjálfunar.

Niðurstöður verkefnastjórnar að raunfærnimat í atvinnulífinu hafi mikið gildi fyrir einstaklinga og íslenskt atvinnulíf og því brýnt að koma á samræmdu kerfi og innleiða ferla þar sem tækifæri gefast í samráði við hagsmunaaðila.

Hvað er raunfærnimat?

Viðurkenning á hæfni í gegnum raunfærnimat er valdeflandi fyrir einstaklinga, hvetur til frekari þróunar í námi og starfi og styrkir um leið samkeppnishæfni fyrirtækja. 

Aðrir þættir sem vega þungt eru að ferlið:

 • – Dregur fram raunverulega þekkingu meðal starfsfólks og gefur glögga mynd af tækifærum til frekari þróunar.
 • – Veitir staðfestingu (á hæfni) sem auðveldar yfirfærslu á hæfni á milli starfa.  
 • – Veitir yfirsýn á hæfni innan fyrirtækja sem er mikilvægt í ljósi aukinnar sjálfvirknivæðingar.

Til að koma á sjálfbæru kerfi sem nýtur trausts atvinnulífs (fyrirtækja og einstaklinga) og fræðsluaðila þurfa að mati verkefnastjórnar eftirfarandi forsendur að vera til staðar:

 1. Samræmd aðferðafræði viðhöfð í framkvæmd óháð greinum, vinnustöðum og eðli starfa.
 2. Fjármögnun til að framkvæma raunfærnimat að vera fyrir hendi.
 3. Starfslýsingar og hæfniviðmið vistuð miðlægt og aðgengileg öllum.
 4. Niðurstöður viðurkenndar á vinnumarkaði og til frekara náms (fagbréf).
 5. Bein tenging við formlega kerfið með notkun á INNA og rafrænni ferilbók.
 6. Áhersla á yfirfæranlega hæfni – almenna starfshæfni.
 7. Tenging hæfniviðmiða starfa við íslenska hæfnirammann. 

Í framhaldi af útgáfu lokaskýrslu er vinna hafin við að kynna fyrir hagsmunaaðilum niðurstöður og tillögur og samráð um endanlega útfærslu. Samhliða því verður byggður grunnur að kerfi í samræmi við forsendur verkefnastjórnar og verkefnið útvíkkað fyrir fleiri störf. Þar gætu verið tækifæri fyrir ferðaþjónustugreinar því að töluvert er um störf í greininni sem ekki tengjast formlegu námi. 

Stefnumótunarverkefnið VISKA

Stefnumótunarverkefninu VISKA, um aukinn sýnileika hæfni innflytjenda, lauk á árinu. Því var stýrt sameiginlega af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Iðunni fræðslusetri fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Á innlendri lokaráðstefnu verkefnisins voru lagðar fram tillögur fyrir stefnumótun hér á landi byggt á niðurstöðum umfangsmikillar rannsóknar sem fylgdi eftir um 50 Pólverjum sem fóru í gegnum raunfærnimat, aðlagað sérstaklega að þeim. Helstu niðurstöður sýna að:

-Niðurstöður úr VISKA verkefninu verði nýttar inn í framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda sem á að leggja upp fyrir árin 2020-2024

-Upplýsingagjöf um íslenska skólakerfið og stuðning í íslensku við innflytjendur í framhaldsskólum þarf að formfesta og fjármagna

-Móta þarf stefnu um íslenskunám innflytjenda og skoða sérstaklega hlutverk og ábyrgð hagsmunaaðila, ekki síst innan atvinnulífsins

-Viðbótarþjálfun um raunfærnimat fyrir innflytjendur þarf að vera hluti af þjálfun þeirra sem koma að því

-Til þess að innflytjendur hafi raunverulegt aðgengi að raunfærnimati þarf að skilgreina leiðir til að ná til hópsins og skipuleggja þær (fólk þarf mögulega viðbótarstuðning, takmarkaðar upplýsingar duga ekki)

Í kjölfar verkefnisins var lögð áhersla á að þeir sem fóru í gegnum raunfærnimat til styttingar á námi fengju tungumálastuðning í framhaldsskóla til að getað lokið því.  

IÐAN fræðslusetur

Matvæla- og veitingasvið IÐUNNAR er samstarfsvettvangur fyrirtækja og starfsmanna á sviði hótel- og matvælagreina. Aðild að matvæla- og veitingasviði eiga SAF, Samtök iðnaðarins (SI) og MATVÍS. Hlutverk og megintilgangur matvæla- og veitingasviðs er að stuðla að bættri menntun og hæfni starfsmanna í hótel- og matvælagreinum og vinna að auknum gæðum og framleiðni fyrirtækjanna sem leiðir til betri samkeppnisstöðu þeirra og bættra lífskjara. Starfsemi sviðsins er m.a. fjármögnuð með endurmenntunargjaldi sem kveðið er á um í kjarasamningi og með sértekjum. 

Félagsmenn fá um 75% afslátt af námskeiðum matvæla- og veitingasviðs IÐUNNAR. Námskeið eru ýmist í boði staðbundin, á rafrænu formi eða sem blanda af þessu tvennu. Staðbundin námskeið fara fram í húsnæði IÐUNNAR, í fyrirtækjunum sjálfum, í Hótel- og matvælaskólanum og Verkmenntaskólanum á Akureyri. Reglur um endurgreiðslur og styrki til félagsmanna er að finna á vef IÐUNNAR.

Samstarfsverkefni SAF og IÐUNNAR

Starfsgreinaráð matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina 2019-2023

Starfsgreinaráð eru, hvert á sínu sviði, ráðherra til ráðgjafar um starfsnám á framhaldsskólastigi. Hlutverk þeirra er m.a. að gera tillögur um almenn markmið náms, skilgreina þarfir fyrir kunnáttu og hæfni og gera tillögur um lokamarkmið náms. Starfsgreinaráðið er skipað aðalmönnum og varamönnum sem tilnefndir eru af Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands. 

Formenn starfsgreinaráða, sem eru 12 talsins, skipa síðan sérstaka starfsgreinanefnd. Formaður starfsgreinaráðs matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina er Sólborg Lilja Steinþórsdóttir. Auk hennar eiga SAF einn aðalmann og tvo aukamenn í ráðinu. Sjá nánar hér. Þann 1. janúar sl. færðist þjónusta við starfsgreinaráðin til Menntamálastofnunar.

Norræna nemakeppnin 2020 

Norræna nemakeppnin í matreiðslu og framreiðslu átti að fara fram í Noregi í apríl sl. en var felld niður vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Keppnin verður næst haldin á Íslandi 2022.

Raunfærnimat í matvæla- og veitingagreinum 

Starfsfólki í matvæla- og veitingagreinum sem hafa náð 23 ára aldri og eru með þriggja ára starfsreynslu stendur til boða að taka þátt í raunfærnimati á móti námskrám í matreiðslu, framreiðslu, bakaraiðn og kjötiðn. Markmið raunfærnimatsins er að meta starfsreynslu á móti verkefnum námskrár og gefa  áhugasömum tækifæri til að stytta nám sitt í skóla og á vinnustað. Töluverður fjöldi hefur nýtt sér þessa þjónustu á liðnum árum og reynslan er góð. Raunfærnimat í greinunum er reglulega í boði og áhugasömum er bent á að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa IÐUNNAR. IÐAN býður einnig raunfærnimat á móti hæfnikröfum starfa, s.s. barþjóna og þerna. 

Vinnustaðanámssjóður 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið úthlutaði í fyrsta sinn úr vinnustaðanámssjóðnum til fyrirtækja sem voru með nema á námssamningi haustið 2011. Ánægjulegt er hversu margir forsvarsmenn fyrirtækja í matvæla- og veitingagreinum hafa nýtt þetta framtak mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Frestur til að sækja um í sjóðinn var  20. nóvember sl. en á árinu 2020 var samtals sótt um fyrir um 70% nema sem eru á námssamningi í matreiðslu og framreiðslu. Samtök ferðaþjónustunnar höfðu í fjöldamörg ár lagt áherslu á að þessi sjóður yrði settur á laggirnar.

Ýmis samstarfsverkefni

Starfshópur um menntun og starfsþjálfun leiðsögumanna

Samtök ferðaþjónustunnar brugðust við beiðni frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um að tilnefna fulltrúa í starfshóp um menntun og starfsþjálfun leiðsögumanna. 

Tilnefnd voru Arnar Már Ólafsson og Ásdís Dögg Ómarsdóttir. í hópnum sitja einnig fulltrúar frá Ferðamálastofu (formaður hópsins), Leiðsögn – stéttarfélagi leiðsögumanna, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. 

Hópurinn skilaði frumniðurstöðum til ferðamálaráðherra 15. febrúar 2021 og er ætlað að skila lokaskýrslu eigi síðar en 15. apríl 2021.

Áframhaldandi samstarf SAF og HÍ um starfsþróun í ferðaþjónustu 

Námsbraut í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands og Íslenski ferðaklasinn undirrituðu í febrúar samstarfssamning um eflingu starfsþróunar og vettvangsnáms í ferðaþjónustu

Samningurinn byggir á samstarfi námsbrautarinnar og SAF frá 2015 í tengslum við námskeiðið Starfsþróun í ferðaþjónustu en um það bil 100 nemendur hafa í gegnum það fengið innsýn í störf og hæfnikröfur fyrirtækja í ferðaþjónustu. SAF fagna áframhaldandi samstarfi um verkefnið og munu halda áfram þeirri mikilvægu brúarsmíði sem nauðsynleg er milli háskólasamfélagsins, rannsókna og atvinnulífsins haustið 2021.

Fræðsluviðburðir ársins

Menntamorgunn ferðaþjónustunnar
Erlent starfsfólk í íslenskri ferðaþjónustu
15. maí 2020
Vinnudagur um sjálfbært og hagnýtt nám í ferðaþjónustu
Vinnudagur með fulltrúum framhaldsskóla, háskóla, símenntunarmiðstöðva og g mennta-og menningarmálaráðuneytis
5. júlí 2020
Grein um fræðslumál
Fréttablaðið birtir grein Maríu Guðmundsdóttur, fræðslustjóra SAF og formanns Hæfnisetursins: Ferðaþjónustan og fólkið til framtíðar
27. nóvember 2020
Menntamorgunn ferðaþjónustunnar
Ferðamennska morgundagsins
24. desember 2020
Breytingar á stýrihópi Hæfniseturs
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF tekur við formennsku í stýrihóp Hæfniseturs ferðaþjónustunnar
4. febrúar 2021
Vinnufundur Hæfniseturs
Vinnufundur stýrihóps og starfsfólks Hæfniseturs ferðaþjónustunnar á Grand hótel Reykjavík
27. febrúar 2020
Fagorðalisti ferðaþjónustunnar stækkar
Fagorðaflokkur fyrir bílstjóra kemur út í samstarfi SAF og Hæfnisetursins
8. júní 2020
Tvö viðtalsmyndbönd koma út
Rætt við stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja innan SAF
13. nóvember 2020
Nám og þjálfun leiðsögumanna
Fyrsti fundur starfshóps atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um nám og þjálfun leiðsögumanna, SAF og Hæfnisetrið eiga m.a. fulltrúa í hópnum
27. nóvember 2020
Þjónustusamningur um Hæfnisetrið
Nýr þjónustusamningur um áframhaldandi starf Hæfnisetursins til næstu þriggja ára undirritaður við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
1. janúar 2021
Menntadagur atvinnulífsins
Íslandshótel hljóta Menntaverðlaun atvinnulífsins 2020
3. mars 2021