Samskipti við stjórnvöld
Umsagnir um opinber mál
Í því árferði sem ríkt hefur hafa Samtök ferðaþjónustunnar átt í talsvert meiri samskiptum við stjórnvöld en á hefðbundnu starfsári. Þar hafa samræður um stuðningsaðgerðir og viðspyrnuúrræði verið hvað mestar. Samskiptin hafa m.a. farið fram með formlegum erindum og formlegum og óformlegum fundahöldum, t.d. með erindisrekstri fyrir félagsmenn gagnvart ráðuneytum og stofnunum. Þá eru ótalin ýmis formleg og óformleg samskipti starfsfólks og stjórnar SAF við stjórnsýsluna.
Einn mikilvægur þáttur í formlegum samskiptum SAF við stjórnkerfið er að samtökin veita umsagnir um fjölmörg opinber mál árlega. Frá stofnun Samráðsgáttar stjórnvalda hefur slíkum umsögnum fjölgað nokkuð og ferli þeirra er orðið skýrara.
Umsagnir sem SAF veita um mál eru aðgengilegar á vef Alþingis, á Samráðsgátt stjórnvalda og á vefsvæðum stofnana og sveitarfélaga. Umsagnir sem veittar voru á starfsárinu eru einnig aðgengilegar á vef SAF. Alls sendu SAF inn, í eigin nafni og í samstarfi við önnur samtök, 65 umsagnir til stjórnvalda um frumvörp, reglugerðir, stefnur og fleira. Sjónarmiðum SAF um hin ýmsu málefni hefur því verið komið til skila til stjórnvalda.


Erlent samstarf
Samstarf við systursamtök í Evrópu og á Norðurlöndum
Hluti af starfi Samtaka ferðaþjónustunnar er að bera saman bækur sínar um starfsumhverfi greinarinnar við systursamtök á sviði ferðaþjónustu á Norðurlöndunum. Samskipti af þessu tagi eru afar gagnleg þar sem upplýsingar sem þar koma fram nýtast í samræðum og rökfærslum um starfsumhverfi ferðaþjónustunnar hér á landi.
Nordisk besöksnäring
Vegna aðstæðna og ferðatakmarkana í kjölfar kórónuveirufaraldursins var formlegum fundum frestað á starfsárinu en framkvæmdastjóri SAF hefur sótt allmarga netfundi þar sem rætt hefur verið um stöðuna og viðspyrnu og aðgerðir stjórnvalda bornar saman. Umræður hafa snúist um vinnumarkaðsúrræði, aðgerðir til að halda fyrirtækjum gangandi og tækifæri í væntanlegri viðspyrnu.
HOTREC
SAF eru formlegur aðili að evrópsku hótel- og veitingasamtökunum HOTREC. Formlegum fundum starfsársins var frestað en boðið hefur verið upp á nokkra netfundi vegna stöðunnar, auk þess sem reglulegir ársfundir á tímabilinu hafa verið haldnir rafrænt. SAF hafa verið i allnokkrum samskiptum við HOTREC vegna upplýsinga og samanburðar á aðgerðum Evrópulandanna og nýtt þau gögn í samskiptum við stórnvöld hér á landi. Þá hafa HOTREC, m.a. að frumkvæði SAF, þrýst á erlenda bókunarvefi um úrbætur og aðlögun viðskiptaskilmála að aðstæðum ferðaþjónustufyrirtækja vegna faraldursins.
Nordisk persontransport
Hætt var við alla formlega fundi starfsársins á samstarfsvettvangi Norðurlanda um fólksflutninga. Allmargir netfundir hafa verið haldnir þar sem rætt hefur verið um stöðu aðgerða og viðspyrnu. Einnig hefur verið rætt um aðgerðir og opinbert regluverk gegn ólöglegri starfsemi hópbifreiða þegar viðspyrna hefst.
NordPass – Nordisk Passagerarbåt Förening
Samtök ferðaþjónustunnar eru aðilar að samtökum útgerða með farþegabáta (Nordpass). Samtökin hittast á hverju hausti en vegna aðstæðna var hætt við fundinn árið 2020 sem vera átti í Helsingör í Danmörku. Í stað þess er gert ráð fyrir að fundur ársins 2021 verði á sama stað. SAF hafa þó átt í talsverðum óformlegum samskiptum við aðila innan Nordpass og leitað upplýsinga um fyrirkomulag ferjusiglinga, mönnun, öryggisstjórnun, búnað o.fl. sem nýst hafa í samræðum og samskiptum við Samgöngustofu um fyrirkomulag ferjusiglinga hér við land.
Erlent samstarf á sviði fræðslumála
NVL-netið um hæfni í atvinnulífinu leggur til að aðilar atvinnulífsins komi í samstarfi við stjórnvöld að mótun heildstæðrar langtímahæfnistefnu þjóðar. Efla þarf tækifæri starfsfólks til þess að takast á við örar breytingar og til þess að geta verið lengur á vinnumarkaði. Rík þörf er fyrir betri kerfi til þess að skilgreina þarfir atvinnulífsins fyrir hæfni.
Nánar um skýrsluna:
Rétt er að geta þess að skýrslan er væntanleg á íslensku. Fulltrúar Íslands í nefndinni voru Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, og María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.





Nefndastarf byggir undir öflugt rekstrarumhverfi
Mikið mæddi á fagnefndum SAF á starfsárinu þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Haldnir voru 40 staðbundnir nefndarfundir og um 80 fjarfundir. Einnig stóðu nokkrar nefndir fyrir félagsfundum. Málefni nefndanna byggðust á því að ræða aðgerðir stjórnvalda vegna Covid-19 og tillögur til úrbóta teknar fyrir sem margar urðu að veruleika. Fagnefndastarfið einkenndist einnig af hefðbundnum umræðum um rekstrarumhverfi viðkomandi greina, bæði vegna viðspyrnu í kjölfar Covid-19 og rekstrarumhverfis ferðaþjónustu til framtíðar. Sem helstu mál í nefndarstarfinu má nefna markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað, vörugjaldaniðurfellingu bílaleigubifreiða í tengslum við orkuskipti, tryggingasjóð vegna pakkaferða, uppgjör fyrirframgreiðslna með greiðslukortum, skýrari skilgreiningu á gestaflutningum með hópbifreiðum og ólöglega erlenda starfsemi, mönnun farþegaskipa og útfærslu á vinnustaðanámi í matreiðslu og framreiðslu.
Nýársmálstofa SAF, Ferðaklasans og KPMG
Á nýársmálstofu Ferðaklasans KPMG og SAF þann 26. janúar 2021 var rætt um mikilvægi viðspyrnu ferðaþjónustunnar frá ýmsum hliðum. Meðal fyrirlesara var Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sem fjallaði meðal annars um þjóðhagslegan ábata ferðaþjónustu, mikilvægi hennar fyrir vöru og þjónustuskiptajöfnuð og hlutverk hennar í vexti atvinnulífs um allt land. Þá var einnig farið yfir könnun KPMG um helstu áherslur þeirra sem reka fyrirtæki í ferðaþjónustu fyrir árið framundan.