Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem orðið hefur fyrir mestum skaða af völdum COVID-faraldursins. Mikilvægt er að við nýtum þennan tíma vel til að endurhugsa, bæta og breyta á sama tíma og mikilvægt er að viðhalda þeirri þekkingu og hæfni sem nú þegar er fyrir hendi.
Menntun, þjálfun og hæfni starfsfólks og stjórnenda er lykilþáttur í uppbyggingu fagmennsku og gæða í íslenskri ferðaþjónustu og mun verða einn af mikilvægustu þáttunum til uppbyggingar inn í framtíðina að loknum heimsfaraldri.
Á undanförnum árum hafa SAF látið hæfni, mennta- og fræðslumál sig miklu máli varða, enda er hæfni stjórnenda og starfsmanna forsenda aukinnar verðmætasköpunar í greininni.
Mikilvægt er að auka arðsemi og samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu og auk þess hafa áhrif á gildismat og viðhorf stjórnenda og starfsfólks til hæfniuppbyggingar, símenntunar og þjálfunar.