Skip to content

STUÐNINGSAÐGERÐIR VIÐ FERÐAÞJÓNUSTU

áRANGUR SEM BYGGIR Á SAMSTÖÐU OG SAMVINNU

Frá því að áhrifa heimsfaraldursins tók að gæta á Íslandi í mars 2020 hafa Samtök ferðaþjónustunnar unnið sleitulaust að því að létta byrðar aðildarfyrirtækja samtakanna á meðan áhrifanna gætir. Samtökin hafa verið mikilvægur samstarfsaðili stjórnvalda, m.a. hvað varðar mat á áhrifum faraldursins á atvinnu- og efnahagslíf, tillögugerð og undirbúning stuðningsaðgerða stjórnvalda, ásamt því að þoka málum í átt til árangurs með umsögnum og öðrum formlegum og óformlegum samskiptum við alþingismenn, ráðherra og aðra fulltrúa löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, sveitarfélaga og stofnana.  

Hlutverk SAF sem hagsmunasamtaka, þrýstihóps og samstarfsfulltrúa íslenskrar ferðaþjónustu gagnvart stjórnvöldum hefur líklega aldrei verið jafn mikilvægt og undanfarið ár. Óhætt er að segja að sú uppskera stuðningsaðgerða sem staðið hefur fyrirtækjum og starfsfólki til boða síðastliðið ár hefði orðið mun rýrari án sterkrar samvinnu stjórnvalda og fulltrúa atvinnulífsins í SAF og SA sem byggð er á traustum grunni gagnkvæmrar virðingar og langvarandi trausts milli aðila sem og sameiginlegri sýn á mikilvægi hraðrar viðspyrnu efnahagslífsins fyrir allt samfélagið.

Starfsfólk SAF og SA hefur sinnt þessu hlutverki af einurð og með skýrt markmið að leiðarljósi um að  tryggja eins vel og mögulegt er að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki geti komist lifandi í gegnum heimsfaraldurinn og að verðmætasköpunarafl ferðaþjónustunnar fyrir samfélagið beri eins lítinn varanlegan skaða af og mögulegt er. 

Þegar litið er til heildaráhrifa aðgerða er óumdeilanlegt að mikill árangur hefur náðst á liðnu ári. Sá árangur er ekki síst að þakka samstöðu og samvinnu félagsmanna Samtaka ferðaþjónustunnar sem hafa með ráðum og dáð stutt við bakið á stjórn og starfsfólki samtakanna. Í öllum þeim ólíku og óvæntu verkefnum sem heimsfaraldurinn hefur fært SAF í hendur hefur ætíð mátt treysta á samtakamátt aðildarfyrirtækjanna og félagsmenn sem eru í senn ráðagóðir og ósparir á bæði hvatningu og uppbyggilega gagnrýni eftir því sem þörf er á. 

Ljóst er að framundan er mikil barátta í viðspyrnu atvinnugreinarinnar sem á mesta möguleika á að reisa hratt við efnahagslíf og atvinnustig á Íslandi. Í allri þeirri baráttu mun það standa upp úr sem hingað til að kjörorð Samtaka ferðaþjónustunnar hefur sannað gildi sitt svo um munar. Við erum sterkari saman!

Hér að neðan getur að líta yfirlit stjórnvalda um stuðningsaðgerðir sem í boði eru og uppfærða stöðu aðgerðanna. 

Samtök ferðaþjónustunnar
– Sterkari saman –

Umsóknir og yfirlit um allar virkar aðgerðir stjórnvalda á Ísland.is